12.9.2007 | 13:47
Annar í Bloggi
Jæja þá hefst annar í bloggi, spurning hvernig til tekst
Er núna stödd í tölvutíma hjá Svanhildi ásamt hinum tölvunördunum og skelli hér inn myndum af þeim en lopapeysurnar urðu eftir - svo svakalega mikil rigning í dag en gúmmítútturnar héldu litlum fótum þeirra þurrum svo þær koma sér nú alltaf vel. Þetta eru þær Sigrún og Guðrún, þær kalla sig hjónin en við hinar kaöllum þær FLÓNIN en þær mega auðvitað ekki vitað það.
Auðvita eru fleiri nördar hér líka, þær eru úr Hafnarfirði- spurning hvort það sé nokkuð skárra að vera þaðan eða vera kallaður flón. Nei auðvitað eru þetta allt sóma konur sem ég tek mér stundum til fyrirmyndar.
Nú eru bara fjórar vikur til Spánarfararinnar og sumar farnar að pakka og enn aðrar hættar að sofa, mæta á morgnan með baugana niður á axlir og hárið í einni flækju í hnakkanum- gefa sér ekki tíma til að setja upp andlitið og einni var meira að segja vikið úr tíma um daginn því hún bara þekktist ekki, nefni engin nöfn en það var ekki ég.
Guðrún Ásgeirs er svo ánægð með Hótelið sem við verðum á því þar er líkamsræktaraðstaða og nú á sko aldeilis að koma sér í form á þessum fjórum dögum - ætti sko að duga fyrir næstu tvö árin eða svo. Hún fór í Intersport og keypti sér nýja hlaupaskó í gær sem eru þeim töfrum gæddir að í raun þarf hún ekki að fara í þá - þeir hlaupa bara sjálfir og það sem betra er þeir gera þetta fyrir hana, hún liggur bara og sefur úr sér tequilað á morgnana á meðan skórnir hlaupa í ræktinni og brenna fullt af hitaeiningum og víkka vel út frekar aldraðar kransæðar hennar- já þetta kallar maður lúxus
Nafna mín Ásgeirs fannst þessi kona minna sig á mig en eitthvað minnti flaskan hana á fyrri sumarfrí á Spáni.
Hún verður nú trúlega fyrir vonbrigðum þegar ég drekk hana undir borðið þarna úti. Kannski verður hún líka spæld að komast ekki í Séð og heyrt en hver veit nema Mannlíf taki við hana viðtal um för hennar með sjúkraliðanemanum og skólasystrum þeirra út - eða hún sendir lífsreynslusögu til Vikunnar.
Hér í skólanum erum við allar nagandi gulrætur í tíma og ótíma. Sumar orðnar ansi líkar kanínum þegar þær brosa og telst ég víst í þann flokk líka, framtennurnar orðnar all framstæðar, eyrun hafa stækkað töluvert, orðin verulega skeggjuð í andliti og lítill sætur dindill hefur verið að flækjast fyrir mér þegar ég sest- frekar óþægilegt þegar ég er í þröngum buxum en sem betur fer á ég ekki ein við þetta vandamál heldur hef ég verið dugleg að bjóða nöfnu minni með mér og svo eru Brenda, Ragga og Brynhildur nagandi gulrætur líka og eru sumar orðnar ansi líkar kanínum, myndin sýnir Ragnheiði á góðri stund í kaffitímanum í skólanum
Jæja þá er þessum kennsludegi lokið, búin að læra helling um hjartað og æðarnar- viskan vellur út um öll vit, sá fróðlega mynd í sálfræðinni, komst að því að hamingjan felst ekki í kílóum eins og Nína komst einhvernveginn að orði- en það var svo sem ekki nýr sannleikur - tel mig nokkuð hamingjusama þrátt fyrir bubblumaga, undirhöku og hundakinnar. Svanhildur gaf mér gott næði til að blogga aðeins svo núna er bara að vaða heim í rigningunni,(vona samt að fíni kanínufeldurinn minn blotni ekki) og fá sér eitthvað gott í gogginn- ekki gulrót samt
Læt þetta duga í bili
Sjúkraliðaneminn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.