9.9.2007 | 17:30
Sjúkraliðinn
Jæja þá er komið að því að gera sína fyrstu bloggfærslu og er þetta því fyrsti í bloggi í dag.
Við erum fimmtán skvísur (að eigin mati) sem erum í framhaldsnámi sjúkraliða í öldrun. Þetta er mjög skemmtilegt nám og góður hópur samankominn. Á meðfylgjandi mynd sést Brynhildur setja upp þvaglegg hjá einum heimilismanni/konu skólans, en þetta er svona eitt af því sem við erum að læra í þessu námi.
Í skólanum er verið að reyna að gera okkur að vægum tölvunördum - spurning hvernig til tekst en við leggjum okkur allar fram, flestar komnar með þykk lesgleraugu og allar mætum við í hnökróttum lopapeysum og í slitnum gúmmítúttum svo Svanhildur tölvukennari sjái nú að við leggjum okkur allar fram en í raun litum við svona út áður en við urðum nördar. En Svanhildur hefur tekið þá ákvörðun að á haustönninni eigum við að blogga og þetta er afraksturinn.
Við skvísurnar fimmtán erum að fara til Valencia á haustönninni og teljum við að ástæða þess að við eigum að blogga sé sú að Svanhildur kemst ekki með en vill fylgjast með sjúkraliðanördunum sem hún kennir, athuga hvort þeir fari sér nokkuð að voða þarna á Spáni. Við erum reyndar með tvo kennara með okkur til að ekkert fari nú úrskeiðis og allar skili sér aftur heim. Annars ætlar Brenda bara að rölta á milli elliheimila og skoða aðstæður þar og spurning hvort Elín skrölti þetta með henni - aldrei að vita hvar maður lendir þegar aldurinn færist yfir og kannski engin pláss á Íslandi. Sigrún og Arndís ætla að læra spænsku, skilst að þær séu sáttar við að læra tvö orð trúlega verður það Hola og Si en Guðrún Ásgeirs gæti nú kennt þeim eitthvað, hún sagðist kunna eina setningu á spænsku sem er Yo quiero uno doble Tequila, hún var víst lengi að læra þetta en eftir það þá fer hún minnst þrisvar á ári til Spánar til að geta sýnt manninum sínum hversu klár hún er í spánsku. Já blessunin það er bara þarna sem hún getur drukkið Tequila í ró og næði og skandalíserað án þess að það komi í Séð og heyrt. Við hinar erum svo menningarlegar að við ætlum í skoðunarferðir og njóta þessar fallegu borgar, ekkert áfengi né búðaráp, jú auðvitað Ragga og Guðrúnurnar tvær Ásgeirs og Hólm ætla að fylla ferðatöskurnar af skóm og hafa meira að segja beðið okkur hinar að taka með aukatöskur svo við getum fyllt þær af skóm fyrir þær - spurning hvort þær fá þær svo til baka ef þær hafa valið vel - við gætum kannski selt skóna þeirra í Kolaportinu upp í ferðina
Hef þetta ekki lengra í bili
Sjúkraliðinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.